“Þú ert svona ‘Týpa’..’ Þessa setningu hef ég mjög oft fengið að heyra. Íslendingar eru mjög duglegir við að flokka fólk eftir ákveðnum staðalímyndum, allt eftir því hvernig fólk klæðir sig og hér á landi eru tveir útlits flokkar mjög ríkjandi. Þeir eru ‘Týpan’ og ‘Skinkan’.
Týpan: Til eru tvær gerðir af týpunni, 101 Týpan og Versló Týpan. Týpan hefur mjög persónulegan stíl og er ekki hrædd við að sýna hann. 101 Týpan er með puttann á púlsinum hvað varðar tísku og tónlist og er mjög fær í að blanda saman vintage fötum og nýjum. Hún þolir ekki FM957 og notar hvert tækifæri til að koma skoðunum sínum á Friðrik Dór og hinum ‘Hnökkunum’ á framfæri. Hún vill frekar eyða tíma sínum inni á kaffihúsum og á tónleikum og finnst 101 vera svalasta hverfið.
Versló Týpan elskar að fara til útlanda og verslar helst í búðum erlendis eins og H&M og hérna heima á hún allt það nýjasta í Topshop og Zara. Reynir að vera soldið ‘artý’ en er oft ruglað saman við Skinkurnar.
Skinkan: Ljósabekkir, brazilian tan og sólarpúður eru bestu vinir Skinkunnar. Skinkan elskar að versla í Gallerý 17 og Kiss og amerískum búðum eins og Abercrombie & Fitch, Hollister og Victoria’s Secret. Þær eiga Adidas peysur í öllum regnbogans litum og þú ert ekki maður með mönnum nema að eiga allavega eitt par af bæði Carhart og Diesel buxum. Litað hár (hvítt eða svart), hárlengingar og gelneglur toppa svo lúkkið. FM957 er eina útvarpsstöðin sem vert er að hlusta á og það er enginn sætari en Justin Bieber.
Það má nefna fleiri flokkar en þessir eru að mínu mati mest áberandi þegar kemur að fatavali fólks hér á landi. Að sjálfsögðu eru þetta annars mjög ýkt dæmi.
Ég hef mjög oft verið spurð hvort að ég sé nú samt ekki smá skinka í mér, þar sem ég á t.d. föt úr Sautján og hlusta m.a. á FM957. Það er s.s. alveg bannað að blanda þessum tveimur flokkum saman. Hvernig get ég verið tískubloggari og keypt mér föt í Kolaportinu þegar ég kann svo textann við lag eftir Justins Bieber?
Mér finnst svona þröngsýnt hugarfar mjög leiðinlegt. Af hverju má maður ekki bara vera eins og maður er? Það er bara gaman að hafa fjölbreytileika í þjóðfélaginu og geta séð allskonar týpur út á götu. Ef að mér langar að vera í Diesel buxum einn daginn og vintage kjól úr Spútnik þann næsta, þá geri ég það! Skítt með þessar staðalímyndir, vertu í því sem þér líður vel í og umfram allt, vertu þú sjálf/ur!